Siðareglur Félags fagfólks í fjölskyldumeðferð
1. gr.
Grundvöllur fjölskyldumeðferðar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu og að standa vörð um mannréttindi þeirra.
2. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð kemur fram af heiðarleika og virðingu og leitast við að skapa gagnkvæmt traust.
3. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð sýnir ábyrgð í starfi og skuldbindur sig til að vinna sem best í þágu þeirra sem leita meðferðar og standa vörð um velferð þeirra.
4. gr.
Markmið fjölskyldumeðferðar er að vinna að betri líðan og velferð hvers einstaklings og fjölskyldu, stuðla að betri tjáskiptum, styrkja sjálfstæði þeirra og efla færni þeirra til að vinna að lausn eigin mála.
5. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð skal gæta trúnaðar um öll þau mál einstaklinga og fjölskyldna sem berast til þeirra. Undantekning frá þessu er ef notandi meðferðar er sjálfum sér og öðrum hættulegur. Skal þá vísa málinu til réttra aðila.
6. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð veitir aðeins þá meðferð sem það hefur fullgilda þekkingu og reynslu til að vinna. Það ber ábyrgð á eigin hæfni og því að fylgjast með nýjungum í fjölskyldumeðferð, halda við þekkingu sinni og færni í þágu þeirra einstaklinga og fjölskyldna, sem leita meðferðar.
7. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð skal ekki nýta tengsl við þá sem leita meðferðar sjálfu sér til framdráttar og gæta þess að gera ekki notendur meðferðarinnar háða sér á nokkurn hátt.
8. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð skal ekki stofna til kynferðislegs sambands við þá sem leita meðferðar.
9. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð skal ekki vera undir áhrifum áfengis eða annarra efna sem slæva dómgreind þess og athygli.
10. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð gerir ekkert það sem getur rýrt álit almennings á fjölskyldumeðferð en vinnur að því að skapa greininni traust.
11. gr.
Fagfólk í fjölskyldumeðferð vinnur að góðum og traustum fagtengslum sín á milli og virðir hæfni og skyldur hvers annars.
12. gr.
Félagsmenn í FFF eru í góðri samvinnu og tengslum við fagaðila í öðrum fagfélögum, sem vinna að meðferð einstaklinga og fjölskyldna.
13. gr.
Siðanefnd skipa þrír félagsmenn FFF. Nefndin endurskoðar siðareglur og tekur fyrir ábendingar um störf fagfólks í fjölskyldumeðferð.
14. gr.
Ef félagi í FFF gerist brotlegur í starfi þá er hægt að vísa máli hans til siðanefndar FFF sem skilar skriflegu áliti til stjórnar. Stjórn FFF metur þá hvort aðgerða er þörf.
15. gr.
Siðanefnd gætir trúnaðar um þau mál, sem til hennar berast.
Siðareglur FFF voru samþykktar á aðalfundi félagsins miðvikudaginn 19. apríl 2005.
Lög og siðareglur eru til endurskoðunar hjá starfsstjórn félagsins.